Skip to content

Í Aðalnámskrá er hverjum árgangi sett markmið. Mikill munur er þó á færni og þroska nemenda innan hvers árgangs. Því er komið til móts við þarfir hvers nemanda með því að meta reglulega stöðu hans og þörf fyrir sértækan stuðning. Brýnt er að greina sérþarfir nemenda sem allra fyrst á skólagöngunni til að auðvelda þeim að fylgja markmiðum námskrár.

Ölduselsskóli er skóli án aðgreiningar með þjónustu fyrir alla nemendur sína. Jafnrétti til náms eru almenn mannréttindi og það er hlutverk skólans að stuðla að alhliða þroska og menntun allra nemenda í samræmi við áherslur í grunnskólalögum. Til þess að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám, sveigjanlega kennsluhætti og samvinnu nemenda.

Í sérkennslu sem og öllu starfi Ölduselsskóla er lögð mikil áhersla á samstarf allra þeirra sem starfa og hrærast í umhverfi nemandans. Þannig er lögð áhersla á að virkja foreldra til samvinnu um nám nemandans og innan skólans vinna umsjónarkennarar, sérkennarar, þroskaþjálfarar og stuðningsfulltrúar saman að námsframgangi hvers nemanda.

Hlutverk stuðningsfulltrúa

Stuðningsfulltrúi er kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð. Starfið miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum. Starfið tekur mið af þar til gerðri áætlun sem hefur það að markmiði að draga smám saman úr þörf nemenda á stuðningi í þeim tilfellum sem það er hægt. Yfirmaður stuðningsfulltrúa er skólastjóri en dagleg verkstjórn er í höndum deildarstjóra sérkennslu og kennara

Hlutverk þroskaþjálfa

Þroskaþjálfar standa vörð um réttindi fatlaðra nemenda. Í starfi sínu taka þroskaþjálfar annars vegar mið af þörfum hvers og eins og hins vegar þeim kröfum sem samfélagið gerir til þegna sinna. Ennfremur er lögð áhersla á skyldur samfélagsins við hina fötluðu og að samfélagið mæti þörfum þeirra. Þroskaþjálfun felur m.a. í sér að gerðar eru markvissar þjálfunaráætlanir sem miða að því að auka hæfni einstaklinga til að takast á við athafnir daglegs lífs.

 

Deildarstjóri sérkennslu er Eygló Guðmundsdóttir -  eyglog@rvkskolar.is