Skip to content

Skólinn

Ölduselsskóli tók til starfa haustið 1975 undir styrkri stjórn Áslaugar Friðriksdóttur skólastýru. Nemendur voru þá tæplega 100 og kennarar fjórir auk tveggja stundakennara og skólastjóra. Að vori fyrsta skólaárs voru nemendur 104, tveimur árum síðar 590, 799 árið 1980 en hámarki var náð skólaárið l982-1983 en þá voru nemendur 936. Eftir það fór að fækka, niður í 602 árið 1990 og 532 árið 1993.
Fjöldi nemenda í skólanum hefur verið um og yfir 500.
Haustið 2011 hófu 517 nemendur nám í skólanum og við skólann störfuðu rúmlega 80 starfsmenn.

Þegar skólinn tók til starfa var engin skólabygging risin og fór starfið fram í lausum kennslustofum á skólalóð. Haustið 1977 var flutt í fyrsta áfanga skólabyggingar, 16 stofur ásamt miðrými. Haustið 1980 var allur annar áfangi Ölduselsskóla tekinn í notkun. Sama ár fengu nemendur Ölduselsskóla að nýta nýtt  íþróttahús  Seljaskóla og loks haustið 1988, var útisundlaug við skólann ásamt fylgihúsnæði tekið í notkun.  Vorið 1988 lét Áslaug Friðriksdóttir skólastýra af störfum en um haustið tók við stjórn skólans Sjöfn Sigurbjörnsdóttir. Lét Sjöfn af störfum vorið 1989 en þá tók við stjórninni Reynir Daníel Gunnarsson. Haustið 1994 fékk svo skólinn skóladagheimilið Seljakot til ráðstöfunar og afnot af íþróttahúsi ÍR við Skógarsel. Enn var húsnæði  Ölduselsskóla of lítið til þess að þar rúmaðist öll starfsemi.  Haustið 1996 var tekinn í notkun þriðji áfangi hússins til að bæta aðstöðu  Verk- og listgreinakennslu sem hafði lengi búið við þrengsli og slæman aðbúnað.

Haustið 1992 urðu þau tímamót í sögu Ölduselsskóla að boðið var upp á lengda viðveru yngri barna skólans, svokallaðan heilsdagsskóla. Nemendum 1. – 4. bekkjar var gefinn kostur á að dvelja í skólanum eftir að kennslu lauk gegn ákveðnu gjaldi. Veturna 1992 til 1993  og 1993 til 1994 var heilsdagsskólinn að mestu til húsa í Félagsmiðstöðinni Hólmaseli. Haustið 1994 þegar skólinn fékk Seljakot til umráða var starfsemin flutt þangað en auk Seljakots er ein stofa í skólanum notuð undir þessa starfsemi.

Með nýrri  viðbyggingu 1996 fluttist heilsdagsskólinn alfarið úr Seljakoti yfir í Ölduselsskóla.

Fyrsta ár heilsdagsskólans notuðu rúmlega 40 börn þjónustu hans en 60 – 70 börn árið þar á eftir. Þá var starfsmannafjöldi reiknaður einn starfsmaður á  hver 10 – 12 börn. Haustið 1996 er nemendum á miðstigi gefinn kostur á heimanámsaðstoð daglega eftir að kennslu lýkur en  gegn ákveðnu gjaldi.

Lengst af var Ölduselsskóli tvísetinn, og jafnvel þrísetinn á tímabili áður en annar áfangi byggingar var tekinn í notkun, en skólaárið 1994-95 fengu allir nemendur að hefja nám árdegis og yngri nemendur áttu síðan kost á lengri dvöl við leik og störf.

Innra starf skólans hefur verið í stöðugri þróun og endurnýjun. Með tilkomu annars áfanga fékk skólinn gott bókasafn sem síðan hefur gegnt veigamiklu hlutverki í skólastarfinu. Ölduselsskóli var fyrstur grunnskóla Reykjavíkur til að koma upp nettengdri tölvustofu. Sérkennsla hefur alltaf skipað veglegan sess í skólanum og í því sambandi var Dagdeild komið á fót haustið 1991 og þjónaði hún Seljaskóla og Breiðholtsskóla auk Ölduselsskóla. Ýmsir kennarar skólans hafa hlotið styrki til þróunarstarfa, svo sem til að móta nýjar aðferðir í íslenskukennslu, heimilisfræði, líffræði og umhverisfræðslu, vinna að heildarskipulagningu á náttúrufræðikennslu og námsefnisgerð í mörgum greinum, enda hefur skólinn á að skipa atorkusömu og hæfileikaríku fólki. Þá má nefna að félagsstarf nemenda hefur alla tíð verið órjúfanlegur þáttur skólastarfsins og er leitast við að tvinna það saman við skólastarfið.