Skip to content

Nemendaverndarráð:

Hlutverk nemendaverndarráðs Ölduselsskóla er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur í heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu. Í nemendaverndarráði skólans eiga sæti skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri sérkennslu, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur og félagsráðgjafi frá Þjónustumiðstöð Breiðholts. Nemendaverndarráð kemur saman vikulega á starfstíma skólans. Umsjónarkennarar mæta á fundi nemendaverndarráðs þegar fjallað er um mál nemenda í þeirra umsjónarbekk.

Áfallaráð:

Við Ölduselsskóla er starfandi áfallaráð og hlutverk þess er að undirbúa viðbrögð við áföllum sem tengjast nemendum svo sem dauðsföllum í fjölskyldu, alvarlegum veikindum, sjálfsvígshótunum, slysum á skólatíma og afleiðingum náttúruhamfara. Áfallaráð sér einnig um:

  • upplýsingaflæði til allra innan skólans sem tengjast nemandanum
  • stuðning við kennara
  • að fylgjast með að nemandinn fái allan þann stuðning sem mögulegt er að veita innan skólans, eins lengi og hann þarfnast
  • aðgengilegt fræðsluefni fyrir kennara og starfsmenn um viðbrögð við áföllum og alvarlegum veikindum
  • bókalista fyrir nemendur og kennara yfir barnabækur þar sem sorgin er meðhöndluð
  • að sækja ýmis námskeið og fyrirlestra sem gætu nýst starfi teymisins.

Skólastjóri eða staðgengill hans er ábyrgur fyrir því að kalla saman áfallaráð þegar þörf þykir og stýra vinnu þess og skipulagi. Áfallaráð skal koma saman eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á hverju skólaári og skál þá miða þá fundi við ágúst og janúar.

Í áfallaráði sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, hjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, sóknarprestur hverfisins, og 3 kennarar sem eru kosnir að hausti.

Eineltisteymi:

Ölduselsskóli er einn þeirra grunnskóla sem tekur þátt í Olweusaráætluninni gegn einelti. Helstu markmið áætlunarinnar eru að draga úr tækifærum til eineltis og skapa þannig andrúmsloft að einelti borgi sig ekki. Áætlunin byggir á kenningum prófessors Dan Olweus sem rannsakað hefur einelti sl. 30 ár og er einna fremstur fræðimanna í heiminum á því sviði.

Matsteymi:

Í Ölduselsskóla starfar 5 manna matsteymi sem starfar samkvæmt VIII kafla í lögum um grunnskóla frá 12. Júní 2008. Matsteymi Ölduselsskóla er kosið til þriggja ára í senn.
Matsteymið gerir matsáætlun til þriggja ára í senn þar sem reynt er að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Matsteymið starfar eftir þessari áætlun og birtir síðan opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og gerir áætlanir um úrbætur ef matið upplýsir að úrbóta sé þörf.
Markmið matsteymisins eru samkvæmt 35.gr. laganna um markmið mats á skólastarfi:

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda.
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum.
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum